Ritstjórnarpistill: Opnun

Höfundur hefur engan rétt, aðeins skyldur
Jean-Luc Godard

Líkt og allir vita sem á annað borð reka nefið hér inn var Starafugl nýlega kærður fyrir myndbirtingu án leyfis, þegar birt var mynd Ásgeirs Ásgeirssonar af athafnaskáldinu Sölva Fannari, sem áður hafði birst með ljóðum hans og fleiri myndum á félagsmiðlum, í gagnabönkum og fjölmiðlum. Um það mál má lesa frekar í pistli sem birtist hér þegar ákveðið var að loka vefnum tímabundið á meðan næstu skref væru könnuð. Vefurinn hefur nú verið opnaður en verður myndalaus með öllu á meðan þessi mál eru enn óleyst – og myndlist vikunnar fellur af þeim sökum niður, a.m.k. um hríð (en mun hugsanlega birtast með afbrigðum, myndlaus).

Við lærðum þetta, sem við kannski vissum fyrir: Það er hættulegt að vitna í ljósmyndir, hættulegt að vitna í verk sem standa utan hins hefðbundna ramma – verk sem gerast í fjölmiðlum og eiga sér ótal höfunda – og það jafnt þótt verið sé að fjalla um þessi tilteknu verk. Það er sérstaklega hættulegt fyrir vef sem er rekinn í sjálfboðavinnu og á kostnað ritstjóra – það er, einsog alltaf, auðvelt að knésetja þá sem eiga litla peninga og hafa engar stofnanir að baki sér. Línan sem skilur að hið löglega og ólöglega í þessum heimi er máð – einsog myndirnar á vefnum í dag.

Má ég birta ljósmynd ef ég gæti þess að vista hana ekki á mínum vef?

Má ég birta ljósmynd í opnum aðgangi á Facebook með því að hlekkja í hana?

Má ég birta höfundarréttarvarin myndbönd af YouTube eða Vimeo, tónlist af Soundcloud eða Spotify – við gerum það öll, svo til daglega, á félagsmiðlum, bloggum og víðar?

Má ég birta myndir af plötuumslögum eða úr öðru kynningarefni listamanna – þegar ég hef ekki hugmynd um hvort hljómsveitin hafi greitt hönnuði eða ljósmyndara?

Má ég birta myndir af heimasíðum leikhúsa, hljómsveita, listamanna o.s.frv. – ómerktar ljósmyndara, það kemur hvergi fram að þær megi nota, en í hvaða tilgangi öðrum væru þær þarna?

Má ég birta myndir í höfundarrétti mikið breyttar – jafnvel óþekkjanlegar?

Ég hef gert þetta allt. Ef höfundarréttarmafían myndi fínkemba Starafugl mætti kæra mig svo oft að ég gæti hæglega eytt ævinni í réttarsölum. Samt er vefurinn bara nokkurra mánaða gamall og ég hef reynt að sýna sanngirni og vera sjálfum mér samkvæmur í notkun myndefnis.

Ætli maður að standa á öllum prinsippum höfundalaga og vera viss um að fara aldrei yfir línuna þarf maður að eyða a.m.k. hálfri vinnuviku í skrifstofustörf, hvort sem maður getur greitt fyrir myndir eða ekki – senda út pósta og ganga úr skugga um að allar myndir séu innan rammans (ætli það birtist ekki á bilinu 10-40 myndir á Starafugli á viku). Líklega væri best að tvítryggja sig svo með því að halla aldrei máli á neinn, segja aldrei neitt sem neinn gæti tekið illa upp.

Hinn valkosturinn er að taka sénsinn, reyna að sýna bærilega sanngirni og vona það besta. Það var sú leið sem var valin þegar Starafugl var settur á laggirnar, aðallega vegna þess að önnur var ekki fær. Það er hvorki til meiri peningur eða tími en fer í þetta verkefni nú þegar. En miðillinn – það er að segja veskið mitt – getur ekki átt yfir höfði sér að eiga von á reglulegum reikningum með sektarálagi frá höfundarréttarmafíunni. Hann lifir það einfaldlega ekki af; þá er ekki starfhæft í húsinu. Við tókum sénsinn og sénsinn borgaði sig ekki. Hvað gerir maður þá?

Málið er í einhvers konar farvegi. Ég bíð endanlegra svara frá Myndstef um hvort innheimtunni verði haldið til streitu, og ég bíð sömuleiðis svara frá stjórn SÍM um hvort þau kæri sig um að ættleiða málið og reka það fyrir hönd Starafugls. Á meðan engin lausn er fundin verða allar myndir á vefnum máðar. Lausn í þessu máli er hins vegar ekki lausn í þeim öllum; stóri bófinn hérna er handónýt höfundalöggjöf sem gerir ekki ráð fyrir því að samtíminn sé annar en hann var fyrir fjörutíu árum.

En vefurinn er allavega opinn.