Lóa Hlín Hjálmtýsdóttir. Sjálfsmynd úr Legói.

Fær hugmyndirnar sínar í Tiger í Kringlunni

- viðtal við fjöllistakonuna Lóu Hlín Hjálmtýsdóttur

Vofa leikur lausum hala um Facebook, vofa Lóu Hlínar Hjálmtýsdóttur. Eða svona eitthvað afsprengi Lóu allavega. Fullt af myndum eftir hana. Lóa ákvað semsagt að samhliða sýningu sinni á Borgarbókasafninu, sem nú stendur yfir (og má lesa aðeins meira um hér að neðan) myndi hún búa til eina teiknimyndasögu á dag í heilan mánuð og upphala hverri og einni á internetið.

Ég varð ákaflega uppnuminn af þessu athæfi hennar, þar sem ég er bæði alltaf á netinu OG hef ægilega gaman af því að lesa teiknimyndasögur Lóu og líka af því að þetta er mjög ofurmannlegt þrekvirki, að búa til svona eina sögu á dag (ég hef ekki búið til neina teiknimyndasögu og hef þó lifað í marga daga samanlagt). Af því tilefni þótti mér viðeigandi að senda Lóu tölvupóst með einhverjum spurningum, sem hún svo svaraði. Svo sendi ég nokkrar spurningar í viðbót. Svo sendi hún mér myndir sem ég setti við textann og svo skrifaði ég þennan inngang.    

Hæ Lóa hvað er að frétta?

Allt ágætt, bara upp og ofan og allskonar.

Ég sé að þú virðist gera eina teiknimyndasögu á dag um þessar mundir—og svo halarðu þeim upp á netið líka! Hvernig stendur á þessu?

Þar sem ég stunda ekki íþróttir, þá finnur keppnisskap mitt sér leiðir til þess að brjótast út. Úlfhildur Dagsdóttir bauð mér að sýna á Borgarbókasafninu. Á undan mér voru myndasöguhöfundarnir Sirrý og Smári með sýningu í safninu. Þegar Úlfhildur sagði að þau hefðu verið með eina sögu á dag, heyrði ég keppnishundinn inni í mér segja: ,,Já einmitt, ég líka sko.” Svo þurfti ég að standa við það til þess að líta ekki út eins og flón. En það leiddi mig á þessa braut, sem er bara gott mál því ég á það til að glápa bara á sjónvarpið á kvöldin. Þetta er mun próduktívari hegðun.

Mjög skemmtilegar teiknimyndasögur annars. Hvernig færðu eiginlega hugmyndirnar þínar? Djók.

Takk, í Tiger í Kringlunni. Djók.

Hvar er eiginlega dagur 1 sagan? Ég finn hana hvergi?

Hún er á Tumblr, ég póstaði bara linknum. Undarlegt háttalag. En ef einhver vill kíkja þá er hún á loahlin.tumblr.com

(Athugasemd frá ritstjórn: hún er líka hérna að neðan. Farðu samt endilega á Tumblr).

Teiknimyndasöguáskórun Lóu hófst með þessu ágæta verki

Teiknimyndasöguáskórun Lóu hófst með þessu ágæta verki

Nema hvað, er þetta „teiknimyndasaga á dag“ dæmi einhverskonar áskorun á sjálfa þig? Af hverju gerir maður svoleiðis? Er manifestó fyrir áskorunina Eru fleiri reglur en bara að gera eina teiknimyndasögu á dag og setja á internetið? Svona Dogme 95 reglur eitthvað?

Já þetta er áskorun. Ég hef mjög gott af þessari sjálfspyntingu. Manifestóið, ef manifestó skyldi kalla, er bara þessi eina regla: Ein á dag, bannað að sleppa því.

Nú ert þú mjög dugleg að teikna og gerir fallegar myndir líka. Er hægt að hafa eitthvað uppúr svona teikniskap á Íslandi? Þarf maður kannski að vera alltaf að teikna eitthvað fyrir auglýsingastofur og forvarnarverkefni ef maður ætlar að lifa á því?

Takk fyrir. Ég lifi ekki eingöngu á teikniskap. Ég lifi á hljómsveitarstússi, teikniríi, þáttaskrifum og kennslu meðal annars. Þar af leiðandi er ég með sinaskeiðabólgu og þjáist af streitu og fæ reglulega ábendingu frá heilbrigðisstarfsmönnum um að ég ætti mögulega að vera á kvíðastillandi. Ég þekki fólk sem lifir af því að teikna, en þau eru mjög dugleg og teikningarnar mínar eru hlægilegar við hliðina á þeirra verkum.

Heldurðu stundum að ef þú værir útlensk, þá gætirðu verið ótrúlega ríkur teiknari? Svona eins og fólkið sem gerir MAD og Andrés Önd?

Hahaha, þau eru ekki rík. En ef ég væri útlensk þá væri ég ábyggilega flutt á einhvern lífrænan hippabúgarð og væri of Zen til að gera myndasögur.

Mér hættir alltaf til að lesa teiknimyndasögurnar þínar sem allavega svona hálfsjálfsævisögulegar. En svo hef ég oft hitt þig og hangsað með þér og mér þykir eitthvað frekar óraunverulegt að lífið þitt sé eitthvað líkt teiknimyndasögunum. HVERNIG SKÝRIRÐU ÞETTA MISRÆMI?

Ég veit ekki af hverju þér hættir til að lesa þær þannig. Mig langar eiginlega að þú svarir þessari spurningu. Stundum geri ég sjálfsævisögulegar myndasögur, þær eru allt öðruvísi en sögurnar sem ég geri fyrir netið og Grapevine. En ég viðurkenni fúslega að ég þjáist af vegavonsku og er oft að æpa ein inni í bíl.

Verk sem varpar með engum hætti ljósi á líf Lóu

Verk sem varpar með engum hætti ljósi á hversdagslíf Lóu

Myndasögurnar þínar eru oftast glens og grín, en ég greini þó stundum myrkan undirtón þarna. Eins og alkóhólsjúka móðurin, til dæmis. Og maðurinn sem er alltaf að myrða hundinn sinn. Ef ég ætti að taka út eitthvert þema sem ég greini í myrkari sögunum er það kannski „sjálfsstjórn“ og skortur þar á. Aðilar til umfjöllunar virka aumkunarverðir og ósjálfbjarga á tíðum og oft virðist það vegna glataðrar baráttu þeirra við eigin hvatir, skort á aga og sjálfsstjórn. Er ég eitthvað í ruglinu, eða er þetta kannski eitthvað sem þér er hugleikið?

Ég verð að viðurkenna að ég man ekki eftir manninum sem er alltaf að myrða hundinn sinn. Á ég hann?

Já ég meinti sko „alltaf að myrða hundana sína“. Hann sést í einni daglegu sögunni myrða Snatþór konfektkall með súkkulaðimolum.

Sjálfstjórn og skortur þar á er nú bara mjög vel greint hjá þér held ég. En ég er svo sem ekki að fjalla um þetta. Sögurnar eru auðvitað bara litaðar af mér, bókstaflega. Vegavonska er til dæmis skortur á sjálfsstjórn. Þegar ég er ein að keyra þá tala ég upphátt eins og ég sé andsetin. Blóta saklausum gangandi vegfarendum í sand og ösku, rek á eftir þeim ef þau labba of hægt yfir götuna þegar ég hef brotið odd af oflæti mínu og hleypt þeim yfir. Ég er að reyna að venja mig af þessu og breyta hugsunarhætti mínum. Gangandi vegfarandi er alltaf í meiri rétti heldur en manneskjan á bílnum (geislabaugur myndast).

Varðandi fullu mömmuna þá er ekki erfitt að gera sögur um alkóhólsjúka manneskju, ég þekki engan sem lifir alkóhólistalausu lífi. Það er alltaf einhver vinur eða fjölskyldumeðlimur á kantinum, reiður og slefandi … smá grín … samt ekki. Stundum er alkinn maður sjálfur. Ég ólst upp í kringum marga alkóhólista og lærði snemma að mörgu fullorðnu fólki er ekki fullkomlega treystandi. Ég vil samt taka það fram að foreldrar mínir eru ekki drykkjusjúk og dysfúnksjonal. Ég hef verið öfunduð af því að eiga þau að.

Full mamma eftir Lóu

„Það er alltaf einhver vinur eða fjölskyldumeðlimur á kantinum, reiður og slefandi …“

Lítur þú á sögur þínar sem framlag til þess að einhvernveginn lýsa íslenskum eða reykvískum raunveruleika? Gerist það kannski óhjákvæmilega? Og hvaða hliðar þessara raunveruleika er þá helst verið að kanna?

Ég lít ekki þannig á þær nei, hvort sem þær eru það eða ekki. Ég reyni að hugsa sem minnst um hvað hlutirnir eru á meðan ég er að gera þá. Það er erfitt að skapa og vera að drepast úr sjálfsmeðvitund. Myndasögurnar sem ég er að gera núna eru gerðar á hverjum einasta degi og umfjöllunarefnin eru eftir því. Þessari vinnuaðferð fylgir smá panik en alltaf minna og minna. Ég er til dæmis ekki jafn stressuð um hvort að þetta sé gott eða ekki.

Er einhver ægilegur munur sem þú finnur á því að tjá þig myndrænt þá eða hljóðrænt, sem söngkona í hljómsveit (þá með textum og sviðsframkomu og ég veit ekki, klæðnaði og eitthvað)?

Já mjög mikill. Hljóðræna vinnan er bæði hópavinna og svo sést í andlitið á mér þegar ég er að flytja tónlistina. Það er hægt að fela sig meira á bak við teikningar. Varðandi textagerð þá vinnum við þá saman og sögurnar sem við segjum eru sjaldan saga einhvers eins. Myndræna vinnan er svo í höndum einbúans. Þá tala ég bara fyrir sjálfa mig og stend og fell með því. Svo get ég setið ógreidd og teiknað í fimmtán ára gömlum leggings og rifnum stuttermabol og enginn segir orð.

Hringrás lífsins í meðförum Lóu

Hringrás lífsins í meðförum Lóu

Geturu sagt smá frá plötunni sem er að koma? Mér finnst hún geðveik.

Takk fyrir. Platan er búin að vera á hægri siglingu í nokkur ár. Við erum búin að vera upptekin við svo margt annað á þessu tímabili að það tók langan tíma að klára hana. Ég finn mjög mikinn mun á því að gefa út plötu númer þrjú og plötu eitt og tvö. Þegar fyrsta platan kom út þá vorum við saklaus og græn og vissum ekkert hvað við vorum að fara út í. Við vorum bara fífldjörf og glöð. Annarri plötu fylgir síðan alltaf eitthvað bannsett stigma. Sumir gagnrýnendur eiga til dæmis mjög erfitt með að vera jákvæðir gagnvart plötu númer tvö. Svo talar fólk við mann á sama hátt og þegar maður er tuttuguogníu ára. „Kvíðir þú ekki fyrir því að verða þrítug?“ er til dæmis algeng spurning þá. Það er svipuð stemmning í 29 og plötu númer 2. Svona eins og fólk sé að segja: „Þú veist að allt getur klúðrast og þú munt eldast og þú veist alveg örugglega að við erum feig er það ekki?“

Ég er á móti svona stemmningu. Auðvitað vitum við að við séum feig. Annars myndum við hlæja að allt öðrum hlutum.

Þriðja plata er svo allt annað mál. Þá gerir maður bara hlutina og pælir miklu minna í skoðunum annarra. Ég er mjög ánægð með þessa plötu og væri alveg til í að hafa hana í bílnum sem sándtrakk við botnlaust roadrage-ið.

Eru einhver verkefni í uppsiglingu sem gaman væri að vita af? Bækur eða svona?

Nei það held ég ekki, ég er sko á strönd að gera verkefni fyrir skólann og tók skannann með til að geta haldið áfram með myndasögurnar. Ég var að pæla í að senda sögu í ÓkeiPiss ef umsóknarfresturinn er ekki runninn út. Svo erum við auðvitað að skrifa Hullaseríu tvö.

Hefurðu einhverjar skoðanir á íslenskri myndasögu/myndskreytingarmenningu og hvernig þú fellur inn í það form?

Nei ekki mikla skoðun svo sem. Mér finnst ótrúlegt hvað það eru margir teiknarar á landinu miðað við fámennið. Ég veit ekkert hvernig ég fell inn í formið. Ég er með lappirnar á svo mörgum stöðum að ég get ekki borið mig saman við fólk sem er einbeitir sér að einu fagi. Fyrir utan hvað það er fatalt að bera sig saman við aðra.

Hvað finnst þér um þarna nafnlausa pitzastaðinn? Á ég að hlakka til að koma heim og borða á honum? Hvað með Kóreska staðinn?

Kóreska staðinn, þú segir mér fréttir. Nafnlausi petzastaðurinn? Ég á eftir að fara þangað. Fólk hefur sterkar skoðanir á þessum stað og því ætla ég að rölta þangað þegar allir eru búnir að róa sig og flíspeysulúðarnir eru mættir á svæðið pantandi extra ost og kokteilsósu. PS: Ég er hræðileg manneskja.

Gætirðu hugsað þér að svara þessu viðtali í teiknimyndasöguformi? Það væri geðveikt, en tæki líklega frekar langan tíma ímynda ég mér.

Æ, ef ég bara hefði tíma kæri vinur. Ég hef varla tíma til þess að greiða mér (bannað að tala um það ef þú rekst á mig).

Hvaða internet teiknimyndasögum mælirðu með að fólk skoði.

Ég mæli með Hark! A Vagrant! og eat more bikes.

Eitthvað annað á internetinu sem fólk ætti að tékka á?

Messy Nessy Chic er skemmtilegt og svo er bara að gúgla einhver góð skandinavísk fail vídeó.

En hvað með í lífinu?

Keilu kannski.

Sýning á verkum Lóu Hlínar stendur nú yfir í Borgarbókasafninu og verður opin þar út apríl. Það má skoða daglegu sögurnar á listafeis síðu Lóu og líka á Tumblrnum hennar. Vel má mæla með því.

Lóa á Borgarbókasafninu - auglýsing

Lóa á Borgarbókasafninu – auglýsing