Yahya Hassan

Yahya Hassan heitir danskt ljóðskáld, ríkisfangslaus palestínumaður fæddur 1995, og hefur sett landið (Danmörku) á annan endann með samnefndri ljóðabók (samnefndri honum, sem sagt, bókin heitir Yahya Hassan) sem hefur selst í yfir 100 þúsund eintökum – og er söluhæsta ljóðabók í sögu Danmerkur.

Bókin er sjálfsævisöguleg fyrstu persónu frásögn, eins konar ákæra á hendur eldri kynslóðum múslimskra innflytjenda í Danmörku, uppreisn gegn ofbeldi og afturhaldshyggju og sníkjulífi foreldranna, á sama tíma og hún fjallar um undirheimalíf hinna ungu, eiturlyf og þjófnað og þá undarlegu stöðu skáldsins að flakka á milli borgaralegs samhengis meðal millistéttarskálda á upplestrum og í háskólum og úthverfasamhengis þar sem harðneskjan setur mark sitt á allt.

Fyrir fáeinum vikum birtist ritdómur um bókina í sænska Aftonbladet þar sem ljóðskáldið Athena Farrokzhad – sem fengist hefur við skyld þemu í eigin bókum, nú síðast í Hvítsvítunni (Vitsvit) – rýndi í bókina og sagði meðal annars:

Til eru reynslur sem ég get ekki lýst hér. Af því slagi sem snúast um ofbeldi feðraveldisins í mínu nánasta umhverfi. Það er ómögulegt fyrir mig að lýsa þeim fyrir almenningi sem er að langstærstum hluta hvítur. Því misyndismennir líta út einsog ég.

Hún segir svo að þótt bók Yahya Hassans sé um margt falleg og kraftmikil þá sé það ekki bara svo einfalt:

Að halda því fram að allt sé leyfilegt í nafni listræns frelsis á meðan maður meinar vel er ekki bara klisja sem er notuð til þess að þagga niður í þeim sem finnst frásagnarmátinn óþægilegur. Það segir líka talsvert um hina borgaralegu sýn á bókmenntir sem merkingarlausa nautn.

Þannig að þrátt fyrir að ég trúi á sársauka Hassans og þrátt fyrir að hann segi að Danski þjóðarflokkurinn sé nasistaflokkur sem nýti sér bók hans sér til framdráttar, þá er hann ekki laus undan þeirri ábyrgð að hafa fært þeim vopn í hendur.

Þessu svaraði danski bókmenntarýnirinn og ofurbloggarinn Lars Bukdahl meðal annars með því að segja:

Maður þarf að vera mjög sænskur í hausnum til að ritskoða sjálfan sig svo afdráttarlaust og innilega, og leggja mikla áherslu á (heimskasta hluta hins) hvíta meirihluta almennings og mjög litla áherslu á hinn óhvíta minnihluta, sem gæti einmitt þurft á kraftmikilli og heiðarlegri innanbúðarsögu um feðraveldi og ofbeldi að halda til þess að spegla sig sundraðan í.

Hann leggur svo út af bók Yahya Hassans sem „sjálfsmyndarkarnevalisma“ sem sé þá í andstöðu við „sjálfsmyndarfundamentalisma“ – þeir sem aðhyllist hið fyrrnefnda leiki sér að sjálfsmynd sinni, stýri henni að einhverju marki, ögri henni og svo framvegis, en þeir sem aðhyllist hið síðara séu bundnir sjálfsmynd sinni og fangnir í henni. Önnur dæmi um sjálfsmyndakarnevalisma, en Yahya Hassan, nefnir hann meðal annars Maju Lee Langvad og Kristinu Nyu Glaffey. Þær höfðu áður tjáð sig opinberlega með krítískum hætti um bók Hassans og afstöðu Bukdahls.

Langvad og Glaffey svara síðan Bukdahl í dagblaðinu Information, hafna túlkun hans á verkum þeirra sem karnevalískum og því að þær séu dregnar inn í slaginn og notuð sem vopn gegn vinum sínum, segja hann tala úr forréttindastöðu því kynþáttahatur og hómófóbía sé ekki hluti af hversdegi hans.

Fyrir okkur er sú hugmynd að sjálfsmyndin sé eitthvað sem maður getur skipt út náskyld þankagangi nýfrjálshyggjunnar þar sem allt snýst um einstaklinginn […] Við getum ekki séð hvernig það væri betra eða aðdáunarverðara að bregðast við sjálfsmynd sinni í einhverjum leik, og við gagnrýnum sérstaklega að krafan um þennan leik sé sett fram af þér, sem tilheyrir þeim hluta almennings sem er ekki stöðugt nauðbeygður til þess að bregðast við kynþætti sínum, kyni eða kynhneigð.

Þessu svaraði Lars strax á bloggi sínu (af talsverðri hótfyndni):

Langvad & Glaffey skrifa engar minnihlutabókmenntir, það gera þær í það minnsta ekki fyrir mér, sorglegt ef þær gera það fyrir sjálfum sér (en skiptir kannski ekki miklu fyrir mig, nema mér – einsog á áttunda áratugnum á Kvennahátíðinni í Tangkrogen þegar ég mátti ekki kaupa barmmerki femínista því ég var strákur – sé hreinlega bannað að kaupa og lesa bækurnar þeirra), einsog René Jean Jensen, hvítur, gagnkynhneigður karlmaður, skrifar ekki meirihlutabókmenntir; öll þrjú skrifa vel.

Og bætir svo fljótlega við vangaveltum um að skipta einfaldlega um lit.

Hægt er að lesa ljóð eftir Yahya Hassan á heimasíðu útvarpsþáttarins Orð um bækur.

Hér er svo upplestur með skáldinu af Youtubesíðu forlagsins Gyldendal.