GusGus - Mexico

Tónlist vikunnar: Nýja GusGus platan er æði

Tónlist vikunnar er í styttra lagi núna.

Í síðustu viku datt inn nýja GusGus platan og setti líf umsjónarmanns að einhverju leyti úr skorðum. Hún heitir Mexico, ég hef ekki hugmynd um af hverju. Síðasta plata hét Arabian Horse, ég skildi það eiginlega aldrei heldur. Af einhverjum ástæðum kýs íslenskasta hljómsveit samtímans 1 (og út síðustu tvo áratugi næstum) að skýra plöturnar sínar eftir útlenskum hlutum, en ekki eitthvað eins og Stokkseyrarhumar eða Drangsnesviti (reyndar hét fyrsta lagið á Arabian Horse Selfoss, og var það vel).

Hér er myndband af plötunni, við lagið Crossfade:

Þetta er ekki besta lag plötunnar, en það er samt æðislega skemmtilegt. Og fylgir einhverju aðþvíervirðist þema sem þar er að finna, sem gengur einhvernveginn út á að tala um heiminn og rannsóknir á honum, auk könnunar á sjálfinu og kynferðislegum hedónisma (og almennum hedónisma), með nafngiftum og orðfæri úr heimi raftónlistar (Crossfade, Sustain, Airwaves (semi)). Ég ímynda mér einhvernveginn að þarna séu menn að velta vöngum yfir hvernig dansgólfið (eða nóttin í Reykjavík) getur á góðri stundu orkað sem míkrókosmós fyrir allt heila ferðalagið, og kannski hvernig þeirra eigin ferill, sem spannar orðið áratugi, gerir kannski slíkt hið sama. Eitthvað tungumál til að tala um eitthvað. Ég veit það samt ekkert, mér finnst allavega gaman að ímynda mér það. Í það minnsta eru GusGus-liðar að reyna eiga samræður við samfélag sitt um einhvern veruleika sem þar finnst, milli þess að gera vandaða, dansvæna raftónlist.

Ég er annars búinn að eiga mörg mismunandi uppáhaldslög af þessari plötu síðustu vikuna (núna er það Another Life, sem Urður syngur), og efa ekki að þau eigi eftir að verða fleiri eftir því sem á líður sumarið. Né að hún eigi eftir að fylgja mér út sumarið.

GusGus - Mexico

Þetta er líklega plötukápan. Svona kaktusmaður. Ég veit það samt ekki, ég kaupi aldrei plötur.

Harðir GusGus aðdáendur til margra ára vilja einhverjir meina að þetta sé þunnur þrettándi miðað við þeirra bestu verk. Það getur alveg verið, ég veit það ekki. Sumir segja svo að hún sé ekki alveg jafn góð og síðasta plata, Arabian Horse, sem var magnað meistaraverk. Ég veit það ekki heldur. Ég veit bara að þessi plata er í mér núna og mér þykir það ægilega gott.

Og kannski þykir þér það líka, ef þú tékkar. Ég mæli allavega með því.

PS – Hann Questlove er búinn að klára sína ágætu greinaröð um „hvernig hiphop brást svörtum Bandaríkjamönnum“ (sem við ræddum hér). Hérna má lesa sjöttu og síðustu greinina (og þar eru líka hlekkir á allar hinar). Vel má mæla með þessu.

PPS – Í dag hefst tónlistarhátíðin SECRET SOLSTICE. Rosa mikið af góðu stöffi þar (þó það sé reyndar smá ofmetnaður í gangi með fjölda hljómsveita … það þarf kannski ekki að hafa fjögur svið opin kl. 13:00 á föstudegi); fólk ætti eiginlega að fara svo aðstandendur haldi áfram að nenna standa í þessu.

   [ + ]

1. Fyrir mér hefur GusGus lengi orkað sem einskonar táknmynd íslenskrar tónlistar, eins og hún gerist best. Svona möndull hennar, eða kjarni, essens eða hvað. Ég hef lengi trúað því að til sé eitthvað sem má kalla „íslenskan hljóm“ – einhver stemmning eða hljómur eða nálgun sem ég þykist greina hjá til að mynda Þey og Kukli og Sykurmolum og Björku og Maus og múm og Sigur Rós og Grafík og víðar, einhver svona hugmynd um „kuldarokk“, e. Það er erfitt að lýsa honum, en ég þekki hann þegar ég heyri hann. Og GusGus býr þar.