„Það mun ekki standa á okkur“

Líkt og fram kom í fréttum fyrir helgi hefur Amazon-bókabúðin opnað fyrir sölu á íslenskum rafbókum, sem fram til þessa hafa ekki verið fáanlegar fyrir algengasta rafbókalesarann, Kindle. Á vaðið riðu bókaútgáfan Björt og Bókabeitan. Í viðtali við Starafugl segir Egill Örn Jóhannsson, útgáfustjóri Forlagsins, að ekki sé nokkur spurning hvort Forlagið muni fylgja í kjölfarið. „Við reyndum fyrir nokkrum misserum að koma rafbókum okkar í sölu hjá Amazon, án árangurs“, segir Egill. „En í ljósi fregna helgarinnar þá höfum við þegar sett okkur í samband við Amazon á nýjan leik og vonandi verða allar rafbækur Forlagsins orðnar fáanlegar í verslun Amazon – og þá „gjaldgengar“ fyrir Kindle.“

Aðspurður um hvort hann hafi nokkra hugmynd um hversu langan tíma þessi ferill muni taka segir Egill hann vonandi ekki verða of langan. „Þeir sögðu okkur í dag að þeir myndu hafa samband aftur fyrir vikulokin, en mér þykir erfitt að lofa einhverri tímasetningu. Ég segi þó að það verður eins fljótt og kostur er – það mun ekki standa á okkur.“

Guðrún Vilmundardóttir, útgáfustjóri Bjarts, segir að forlagið vildi gjarna vera í samstarfi við Amazon. „En síðast þegar við athuguðum málið leist okkur ekki á kjörin sem þeir buðu. Vonandi náum við saman um þau.“ Aðspurð um hvort staðan verði könnuð aftur núna segist hún viss um að þróunarstjórinn sé kominn í málið.