A = B << C. Leikari læst vera Hamlet á meðan áhorfendur í Globe-leikhúsinu fylgjast með. Mynd: cbc.ca

Leikhúsmál – fyrsti hluti

Leikhús er eitt þeirra hugtaka, sem allir vita hvað merkir, en það getur vafist fyrir manni að skilgreina í þaula hvað orðið í rauninni þýðir. Samt eru til pottþéttar skilgreiningar á fyrirbærinu leikhús, svo haldgóðar að þeim verður næstum ekki mótmælt. Eric Bentley, leikritahöfundur, leikstjóri og einhver afkastamesti leikhúsrýnir síðustu aldar á Vesturlöndum, sagði til dæmis að leikhús væri það þegar einn leikur einhvern annan en sjálfan sig meðan einhver annar horfir á.

Formúlan lítur einhvern veginn svona út:
A = B << C

Samkvæmt þessu þarf ekki nema tvo til. Jafnvel ekki til þess að leika Hamlet. A, sem er leikarinn, þykist vera Hamlet, sem er B, og C, áhorfandinn, horfir á leikarann sem er líklegur til þess að taka sér hauskúpu í hönd meðan á gjörningnum stendur. En auðvitað yrði svona gjörningur aldrei Hamlet eftir Shakespeare nema þá leikarinn taki upp á því að leika líka öll hin hlutverkin í leikritinu. Sem margir hafa reyndar spreytt sig á og fengið miklu fleiri en einn áhorfanda til þess að horfa á sig.

Vitaskuld er fyrirbærið leikhús miklu flóknara en ofangreint líkan Erics Bentley gefur til kynna, enda bætti hann því við skilgreiningu sína að þetta ABC-leikhús væri einfaldasta birtingarform leikhúslistarinnar.

Listgreinar sem nær alltaf er einhvers konar tjáning á lífi fólks, hugrenningum manna, tilfinningum þeirra. Líka þegar það er eins langt frá því að líkja eftir lífinu sjálfu og framast er hægt að hugsa sér. Bara myndir, hljóð, orð og ljós sem hvorki hafa það að markmiði að segja sögu eða leggja eitthvað sérstakt til þeirra mála sem hæst ber í umræðunni í samfélaginu. Eða að benda á þau vandamál sem eru þögguð í hel allt í kringum okkur. Leikhús sem er bara list. Ekki tæki til þess að greina vanda eða benda á lausnir á honum.

Æ, þar fór í verra. Já, miklu verra, vegna þess að ef það er snúið að skilgreina hvað leikhús er þá er jafnvel ennþá vandasamara að skilgreina list. Hvenær hætta tilburðir fólks við að tjá sig að vera bara hluti af daglegu lífi fólks og verða að leiklist? Ef ég reyni að herma eftir einhverjum stjórnmálamanni er ég þá að leika eða bara að herma eftir? Ég get raunar verið að fást við hvort sem er – að herma eftir Obama eða að leika hann – en hvort heldur sem væri þá yrði tæpast úr því list því að ég er ekki góður í að herma eftir og það dytti held ég engum í hug að fela mér hlutverk Obama. Allavega ekki í því natúralíska leikhúsi sem algengast er að okkur sé boðið að sjá í leikhúsum landsins nú um stundir – og hefur raunar verið algengasta og vinsælasta form leiklistar hjá okkur hérna á Íslandi svo lengi sem elstu menn muna.

Úr Eldrauninni. Mynd: Þjóðleikhúsið.

Úr Eldrauninni. Mynd: Þjóðleikhúsið.

Einhvern veginn er það nefnilega þannig að þótt ýmislegt í leiksýningum hafi breyst heilmikið – eða þróast hratt – á undanförnum árum þá hefur leikstíllinn, aðferð leikaranna, ekki tekið neinum verulegum breytingum. Sýning Þjóðleikhússins á Eldrauninni eftir Arthur Miller er fjarska gott dæmi um þetta. Umgjörð sýningarinnar, leikmyndin og lýsingin, hið sjónræna umhverfi sem blasir við augum áhorfenda er stílfært og afar sjónvænt. Bókstaflega fallegt – finnst mér – þótt ég ætli ekki að reyna að skilgreina hvað fegurð er. Að minnsta kosti ekki hér og nú. Sama gildir um búninga leikaranna. Þeir eru ekki fremur en leikmyndin natúralískir í þeim skilningi að þeir séu sóttir í einhvern fast ákveðinn tíma, alla vega ekki þann tíma sem leikritið gerist á. Það sjá allir sem í leikhúsið koma undireins að það er ekkert verið að reyna að telja okkur trú um að við séum að horfa á eitthvað sem gerðist vestur í Salem í Massachussettes fyrir meira en þrjú hundruð árum. Miklu frekar að reynt sé að benda okkur á það með þessum sjónrænu þáttum að atburðir eins og þeir sem Miller segir frá í leikritinu geti gerst hvar og hvenær sem er. En leikur leikaranna er fyrst og síðast natúralískur, framsögnin reyndar stundum dálítið bókleg eins og einhverjir gagnrýnendur töldu þýðingu leikritsins vera. Að öðru leyti var leikur leikaranna mjög í natúralískum anda og í flestu tilliti afar hefðbundinn, þeir reyndu að láta líta út fyrir að atburðirnir á sviðinu væru í raun að gerast frammi fyrir augum okkar. Þetta gladdi auga, eyra og hjarta í þessari sýningu því að sumir leikararnir sem á sviðinu voru eru fjarska flinkir í þessari list.

En þeir voru allir að þykjast vera einhverjir aðrir en þeir í raun og veru eru. Það vita allir að Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir er ekki Rebekka sem á að hengja og tekur þeim örlögum æðrulaust án þess að láta sér detta í hug að játa á sig einhverja óhæfu. Samt snertir það býsna djúpt að sjá Lilju Guðrúnu standa þarna uppi á brúnni og horfa eins og kaptein á skipi yfir sviðið – horfast í augu við áhorfendur og dauðann. Hvernig í ósköpunum getur staðið á því að svona nokkuð sem allir vita að er ekki satt í sjálfu sér getur haft þessi sterku áhrif?

Er bara nóg að A= Lilja Guðrún þykist vera Rebekka = B meðan C = Trausti horfir á? Auðvitað er það ekki nóg. Ég get til dæmis ekki lofað því að ef ég hefði staðið þarna og þóst vera Obama hefði það getað vakið nokkuð annað en vorkunnsaman hlátur meðal áhorfenda. En meðan ég bíð eftir að fá tilboð um að leika Obama í annars konar leikhúsi en því natúralíska skal ég í næstu Leikhúsmálum velta fyrir mér spurningunni um samspil jákvæðrar trúgirni áhorfenda og list leikarans.

Leikhúsmál Trausta Ólafssonar munu birtast vikulega á Starafugli næstu vikurnar.