Hegelskur módelsmiður upphefur þrjár Hollywood kvikmyndir

Í stuttu máli: Bandarískur táningur kynnist föður sínum, breskum lávarði, og kennir honum og fleirum hvernig á að slaka á og skemmta sér. Hófsamur bandarískur búðarstarfsmaður á þrjár vikur eftir ólifaðar og ákveður að eyða öllum peningum sínum í lúxusferð til Sviss þar sem hann kennir ríka fólkinu (og stífum þýskum hótelstarfsmanni) að slaka á og skemmta sér. Íþróttahetja kemst að því að hún á níu ára barn og þarf að sjá um það í mánuð um leið og stóri leikurinn nálgast. Barnið kennir hetjunni að elska aðra, að slaka á og skemmta sér og að ballett sé líka íþrótt.

Þetta eru sem sagt myndirnar What a Girl Wants, Last Holiday og Game Plan. Þær eiga það allar sameiginlegt að vera fyrirsjáanlegar, tilheyra efri lögum Hollywood miðstéttarkvikmynda (einn til tveir vel þekktir leikarar og flest ágætlega pússað) og þær eru allar lélegar. Þannig séð. Og jú, ég hef horft á þær allar. Oft. Ég mun horfa á þær aftur. Oft.

Game Plan

Ég ætlaði að skrifa stutta endursögn á söguþræði Game Plan en ákvað að ég nennti ekki að skrifa hana og að líklega nenntu hvort sem er fæstir að lesa hana. Ég skrifa þess vegna í staðinn einskonar innihaldslýsingu.

Joe Kingman númer eitt á vellinum
og í hjörtum ykkar

Peyton bara átta ára
(Jói kenna á því fær)
spriklandi úbbs
konungur sófans

PEYTON
Joe Kingman og Ballett
hahahahahahahahahahahahahahahahahahahahahahahaha
haha

Ballerinas can jump
just as high as
you but when they come
down
they come down in
plies,
and then they stand pointe,
and they stand like that for hours.

If ballet was easy, it would
be called
football.

Dwayne “The Rock” Johnson leysir vandann

Dwayne “The Rock” Johnson leysir vandann

Ég horfi á mig horfa á myndina og hristi hausinn yfir öllu saman, en glotti samt í laumi. Ég veit að ég kemst aðeins upp með áhorfið ef ég leyni því eða gengst algjörlega við því. Öll hikblandin stökk eru sama og fall. Ef ég get játast myndinni af heilindum kemst ég jafnvel hærra en þeir sem státa sig af því að horfa á allt of langar myndir sem enginn hefur heyrt um. Mainstreamið er ónýtt auðlind í (hvað-eigum-við-að-kalla-þennan) nútímaveruleika þar sem hver spilari reynir að koma hinum á óvart með meðmælum. „Æ, þú þekkir þetta líklega ekkert“ er orðið mainstream og 80’s költ hryllingsmyndir óendurnýtanleg auðlind, löngu þurr brunnur. Næsta skref er því að rotna kaldhæðnislaust yfir myndunum sem allir hafa heyrt um en engir (post-?)hipsterar viðurkenna að hafa séð.

Ég horfi á mig horfa á myndina og éginn sem horfir á myndina er lítið annað en vessaklessa og éginn sem horfir á mig er ógurlega snjall að glotta yfir sjálfum sér.

Stelpur vilja Colin Firth

What a Girl Wants skartar þeim Amöndu Bynes og Colin Firth (ásamt fleirum auðvitað). Hún er táningurinn sem vill tengjast honum, föður sínum. Hann er lávarður og pólitíkus og hann og móðir Amöndu hættu saman fyrir misskilning (en ekki hvað?) sem vondi kallinn, pólitíski ráðgjafinn, olli.

Amanda brýtur allar reglur breska aðalsins án þess að þekkja þær og heillar nánast alla með bandarískum heilindum sínum. Þeir einu sem þrjóskast við að taka á móti saklausa innileikanum eru fyrrnefndur pólitískur ráðgjafi dóttir hans og dótturdóttir hans (sem eru um leið vonda stjúpan og vonda stjúpsystirin) og hljóta auðvitað makleg málagjöld fyrir það að lokum. Munurinn á milli menningarheimanna sem myndin setur fram kristallast í ræðu sem persóna Amöndu heldur yfir stjúpsystur sinni:

If you take your nose out of the air for one second you’ll see you’re designer, I’m vintage. You’ve got a mansion, I’ve got a five floor walkup. You’re a snotty little miss cranky pants and I go with the flow …

Persóna Colin Firths kemst í snertingu við sitt sanna sjálf.

Persóna Colin Firths kemst í snertingu við sitt sanna sjálf.

Að vísu gæti þetta verið ósanngjörn greining þar sem flestir Bretar myndarinnar eru hástéttarfólk og því kannski nær að horfa á þetta sem samanburð á andstæðum stéttum. Þá passaði myndin líklega í það sem Slavoj Žižek kallar Hollywood marxisma, þar sem andlausa hástéttin nýtir sér lífskraft lágstéttarinnar til þess að endurnýja sjálfa sig.

Við þetta má bæta að framleiðendur myndarinnar hafa valið að sýna Breta á þennan hátt og þá auðvitað til þess að skapa frekari árekstra á milli menningarheima. Ef myndin hefði ekki þennan stéttamun hefðu sennilega allir brandararnir verið líkir þessum sem er í einni af fyrstu senunum í Bretlandi: Loo’s free — Who’s Lou? (haha, því að klósett).

Smekkur manna er misjafn, vissulega, en sumt er drasl. Þessi staðhæfing hvílir á fínni línu sem þolir lítið tog, og hún virðist búa yfir tvöfeldni. Jújú, ég er alveg lýðræðissinni og allt það en sama hversu margir horfa á Ísland Got Talent þá er það rusl. Þessi afstaða hefur verið varin á ýmsan hátt. Sumir líkja þessu við ruslfæði, maður nennir ekki alltaf að elda eitthvað almennilegt og þá er þægilegt að grípa í eitthvað sem maður skammast sín svo fyrir (ég vil reyndar halda því fram að það sé skömmin sjálf sem sé ávanabindandi).

Sumir koma sér undan. Velja afstæðishyggjuna; allir hafa jú sinn smekk. En það er meinið, þetta er undankomuaðferð, tilraun til hlutleysis um eina svið samfélagsins þar sem má enn vera súbjektívur. Það er til eitthvað sem heitir góður smekkur og vondur smekkur, enda viðurkennir fólk oft í vitna viðurvist að það hafi slæman smekk, talar um „guilty pleasures“, þorir ekki annað en að skammast sín fyrir það að njóta. Eflaust er hægt að skoða þetta á marxískum nótum, kannski er það bara vonda menningar- og menntaelítan sem hefur skammast svo í Hollywoodlepjandi glæpasagnaaðdáendum að þeir hafa innlimað skömmina og eru farnir að skammast sín. Ég hef samúð með slíkri greiningu en dett alltaf í tvöfeldnina, í eitt stórt EN (misjafn er smekkur manna EN þú ert smekklaus, allir hafa rétt á sínum smekk EN þú ættir bara að halda kjafti).

Ég horfi ekki á mig horfa á What a Girl Wants, er of upptekinn við að greina, taka í sundur og endurraða. Finnst ég samt vera klókur að geta tekið í sundur.

(Ég hvet alla sem hafa aðgang að myndinni á DVD að horfa á hana, eða að minnsta kosti byrjunina, með athugasemdum Amöndu Bynes. Ég hef enn ekki hugmynd um fyrir hvern þessi hljóðrás var gerð, ég get ekki ímyndað mér að margir sem horfi á þessa mynd hafi almennt áhuga á slíku. Það er kannski þess vegna sem ég fæ það að á tilfinninguna að ég sé að hlera þegar Amanda Bynes segir hvað þessi og hinn hafi verið almennilegur og þegar hún útskýrir brandara sem engin þörf er á að útskýra).

Að horfa á Queen Latifah máta föt er að tala við Guð

Það býr einhver hlýja á bak við Last Holiday. Mér finnst eins og ég skynji mennsku framleiðenda í gegnum myndatökuna, eins og þetta sé ekki bara enn önnur Hollywood grínmyndin. Queen Latifah leikur Georgiu Byrd, starfsmann í eldhúsáhaldadeild stórverslunar sem er bálskotin í grillsölumanni. Hún reynir að tala við hann en dettur ekkert í hug til þess að segja og endar þá á því að kaupa grill, í annað skiptið á rúmri viku. Hún ber grillið í garð- og svalalausa íbúð sína þar sem hún eldar dýrindismáltíð handa nágrannastrák sínum. Sjálf lætur hún sér nægja að taka mynd af disknum og borðar síðan eitthvað ógeðslegt örbylgjufæði sem tilheyrir „Lean Cuisine“ megrunarkúrnum. Ef til vill er þetta útreiknað og harðsoðið einmitt til þess að fá fram tiltekin viðbrögð hjá mér, en það virkar samt. Á mig. Persónan er hrífandi, ég heillast. Þegar hún virðist ætla að öðlast langþráð stefnumót við sölumanninn rekur hún höfuðið í, rotast og er sett í heilaskanna. Hún fær þær fréttir að hún sé með sjaldgæfan sjúkdóm og að hún muni deyja innan mánaðar.

Eins og asni hlæ ég að því þegar hún ávarpar drottinn í miðri baptistamessu og kemur af stað fjörlegu gospelatriði: „Why in heavens me?“ Ég hlæ þegar hún skoðar matarmyndir sínar og segir: „I should’ve ate all that stuff“. Ég hlæ þegar hún fer í bankann, tekur allan peningana og svarar því játandi að hún ætli að fara skynsamlega með þá en bætir svo við: „I’m just gonna blow it“. Ég hlæ þegar hún flýgur til Sviss á fyrsta farrými. Það fer ekki í taugarnar á mér þegar hún vinnur allt of lítinn pening miðað við að vinna þrisvar í röð í rúllettu eða þegar samband hennar við ríka og valdamikla fólkið angar af áðurnefndum Hollywood marxisma (jafnvel þótt ríka fólkið haldi að hún sé líka rík). Það fer ekki einu sinni í taugarnar á mér þegar hún fer óvart á ógnarhraða niður brekku á snjóbretti án þess að hafa stigið á slíkt bretti áður.

Georgia Byrd eldar með Chef Didier eftir að hafa heillað hann með matarlyst sinni.

Georgia Byrd eldar með Chef Didier eftir að hafa heillað hann með matarlyst sinni.

Það er bara eitthvað við þessa mynd, einhver galdur. Þetta truflaði mig mikið í fyrstu skiptin sem ég horfði á myndina. Ég vissi að hún væri léleg, jújú, brandararnir voru fínir og allt það en hún tilheyrði einfaldlega flokki fyrirsjáanlegra slæmra mynda. Og mér fannst hún góð. Heimsmynd mín, þar sem allar Hollywood myndir voru svo gott sem sama myndin, hrundi.

Ég horfi á mig horfa á mig horfa á myndina og botna ekki í neinu. Éginn sem horfir á mig horfa á myndina veit að myndin er óttalegt rusl en éginn sem horfir á éginn fussa og sveia er ekki svo viss. Einhvers staðar í samspilinu býr sælan.

Hegel skerst í leikinn

Ég á mér módel af ánægju minni af þessum þremur kvikmyndum. Ég kalla það Hegelskt og er örugglega að misskilja Hegel. Það er í lagi. Hér kemur það:

hegel

Líkaminn er augljóslega aftastur í goggunarröðinni. Líkaminn er skítugur aumur þræll sem öskrar á hitt og þetta, leiðir bestu menn í freistingar og breytir bestu máltíðum í kúk. Hann deyr og hann rotnar. Hann er hluti náttúrunnar í manninum og eins og kristnin hefur kennt er það okkar að beisla náttúruna. Það hlýtur líka að vera þetta aumkunarverða apparat sem fær mig til þess að fíla Game Plan. Hugurinn firrar sig að minnsta kosti allri ábyrgð og andinn hefur ekki einu sinni heyrt af þessari mynd.

Næstur er hugurinn. Hann er rökvísin, greinandinn. Hann er vísindin og hann er það sem beislar náttúruna. Hann beislar líkamann, segir að nú sé komið gott, ekki meira súkkulaði og hættu að fróa þér í eina sekúndu svo ég geti gert eitthvað af viti hérna. Líkaminn er á vissan hátt í huganum, að minnsta kosti í þessu módeli mínu. Líkaminn væri alveg til í að fá að vera einfaldur klumpur fyrir framan What a Girl Wants en beislarinn heldur honum í gíslingu og rífur allt í sundur. Hugurinn er ekki ánægður nema hann hafi fulla stjórn, nema hann sigri líkamann. En hver sigur er líka ósigur, því sigurinn er band sem bindur beislarann enn frekar við hið beislaða. Því meira sem hugurinn sigrar, því meira þarf hann á líkamanum að halda, því ef ekkert er til þess að beisla er beislarinn ekkert. Á þann hátt er ánægjan bundin bæði hinu líkamlega og hinu hugræna. Án heimskulegrar ánægju líkamans verður niðurrif hugans innantómt.

Ég hætti mér ekki alveg út í það að lýsa andanum. Hann trónir efst og er frjáls af sadó-masókísku sambandi líkama og hugar. Kannski er hann einmitt það frelsi. En vá hvað það er gott að sitja heill og horfa á fína mynd. Sitja og leyfa líkamanum og huganum að sitja á gólfinu eins og þægir hvolpar, báðir dolfallnir yfir þessu. Fá báðir sitt, svo að segja. Ég skil ekkert í þessu. Þetta ætti einfaldlega að vera hugræn ánægja, en hvolparnir glefsa ekkert, eru sallarólegir. Mesta furða. Báðir fá sitt. Kannski er það svona að losna undan tvíhyggjunni, friða eilífa innri baráttu, vera maður sem les hámenningarlegar bókmenntir á klósettinu. Lifa af líkama, huga og sál.

En svo klárast myndin.