86: Let it Be með Bítlunum

Það myndast önnur tegund af venslum – sem verða vel að merkja ekki fölsuð – þegar þjóð tekur upp á að endurskíra borgir eða lönd upp á sína eigin tungu. Kaupmannahöfn og Árósar standa en Lundúnir og Kænugarður eru á undanhaldi. Ætli Nýja Jórvík hafi nokkurn tímann verið annað en rembingur? Þessi venslamyndun á sér líka stað þegar hljómsveitir eða einstaklingar eru annars vegar. Svona einsog þegar spænskumælandi fólk – a.m.k. á Kúbu – talar um Federico Engels og Carlos Marx.

Á Íslandi er auðvitað talað um Bítlana og bítlana (mér var kennt að bítlar með litlum væru aðdáendurnir, Bítlar með stórum þeir George, Paul, Ringo og John – og hugsanlega Stu). Michael Jackson var uppnefndur Mikjáll í Æskunni og ABC þegar ég var barn en það festist ekki því þrátt fyrir að MJ væri einn stórkostlegasti tónlistarmaður seinni tíma þá náði hann ekki að syngja sig inn í annála á sama hátt og Bítlarnir.

Að því sögðu hefur mér ekki gengið neitt að hlusta á Let it Be með Bítlunum. Platan er ekki, frekar en aðrar plötur fjórmenninganna frá Liverpool, ættingja þeirra, Michael Jacksons 1 , Yoko Ono 2 og lögfræðinganna 3, aðgengileg á Spotify. Ég reyndi að stela henni af netinu (bara til að hlusta á hana einu sinni í gegn, lofa) en mistókst, enda á bakvið einhvern eldvegg í boði Gautaborgarháskóla (þar sem ég dvel á rithöfundabýli í Jonsered). Ég reyndi að hlusta á plötuna á YouTube og hala henni niður með til þess gerðu verkfæri – til þess að ég gæti farið með hana út að hlaupa en þyrfti ekki að streyma myndbandinu líka, með tilheyrandi kostnaði fyrir mig og óverðskulduðum gróða fyrir símafyrirtækið – en fékk bara fyrsta lagið og svo alls kyns þagnir og vesen. Þegar þetta er skrifað er lykilorðið mitt á net Gautaborgarháskóla útrunnið og ég veit ekki hvenær ég fæ nýtt. Raunar er heita vatnið líka farið.

Ætli þetta sé samt ekki fín plata. Hún væri varla svona hátt á þessum lista annars. Ég er ekki viss um að ég tími að kaupa hana, en ég þarf að redda þessu Bítlavandamáli einhvern veginn, ég á víst fleiri plötur með þeim í vændum.

Eiríkur Örn Norðdahl, ritstjóri Starafugls, ætlar næsta árið að hlusta á 100 efstu plöturnar af lista Rolling Stone frá 2003 yfir 500 merkustu plötur allra tíma – á meðan hann hleypur, hjólar eða keyrir – og reyna að hafa á þeim einhverja skoðun. Let it Be reyndi hann að hlusta á á skokki sínu um Bokedal skammt austur af Gautaborg – það gekk ekki svo hann hlustaði bara á Born in the USA í staðinn.

   [ + ]

1. Plöturnar sem hann gerði sjálfur eru á Spotify, en ekki Bítlaplöturnar sem hann keypti réttinn að – ég veit ekkert hver á hann núna reyndar þegar hann er dáinn.
2. Plöturnar hennar eru líka á Spotify.
3. Þeir eiga engar plötur á Spotify.